LEIÐBEININGAR UM UNDIRBÚNING FYRIR KVIÐSJÁRAÐGERÐ
Fyrir aðgerð
Fasta í 6 klst fyrir aðgerð, það má drekka tæra drykki fram að 2 klst fyrir aðgerð. Reykingar óæskilegar. Hvílast vel. Bað eða sturta kvöldið fyrir aðgerð og aðgerðardagsmorgun. Forðast notkun blóðþynnandi lyfja td þeirra sem innihalda magnýl og bólgueyðandi lyfja (td Ibufen, Voltaren, Naprox...) í 8 daga fyrir aðgerðina. Kóvar þarf að hætta að taka 5 dögum fyrir aðgerð. Xaralto, Eliquis og Pradaxa á ekki að taka í 3 daga fyrir aðgerð. Öll önnur lyf áttu að taka eins og venjulega.
Þeir sjúklingar sem taka blóðþrýstingslækkandi lyf eða hjartalyf mega taka þau með vatnssopa að morgni aðgerðardags.
Eftir aðgerð
Eftir aðgerðina færðu að jafna þig í rúmi á vöknunardeildinni og þegar þú treystir þér til ferðu heim. Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi mataræði, vinnu ofl eftir aðgerðina verður leyst úr þeim fyrir heimferð. Ath. Þú færð róandi lyf eða svefnlyf í aðgerðinni og mátt þess vegna ekki keyra bíl eftir aðgerðina.
Aðgerðin er eingöngu gerð í greiningarskyni. Kviðsjáin er sett inn í kviðinn í gegn um lítið gat við nafla. Það er dælt koltvísýringi inn í kviðinn til þess að skapa rými í kviðnum til þess að hægt sé að skoða kviðarholslíffærin. Það getur verið að það verði gerð tvö göt til hliðar á kviðnum fyrir verkfæri sem eru notuð til þess að flytja til garnir og líffæri í kviðnum til þess að auðvelda skoðunina.
Eftir aðgerðina getur verið verkur í öxlum sem kemur vegna ertingar frá loftinu sem dælt er inn í kviðinn. Fyrstu dagana má búast við óþægindum í aðgerðarsárum. Væg verkjalyf sem fást án lyfseðils í apótekum nægja við verkjunum (Paracetamól, Ibufen).
SÉRFRÆÐINGUR

TRYGGVI B. STEFÁNSSON
Skurðlæknir ristils og endaþarms