

BRCA OG ÖNNUR HÁÁHÆTTUGEN
Konur með stökkbreytingar í BRCA genum (1 eða 2) eru í verulega aukinni hættu á að fá brjóstakrabbamein á ævinni. Önnur gen geta líka aukið þessa áhættu. Með genaprófum er hægt komast að því hvort kona er með stökkbreytingar í þessum genum og er einn valkostur, þegar slík vitneskja liggur fyrir, að undirgangast skurðaðgerð til að minnka þessa áhættu. Kristján Skúli veitir þessum konum ráðgjöf auk þess að bjóða upp á áhættuminnkandi brjóstnámsaðgerðir, ásamt brjóstauppbyggingum, hjá þeim sem það kjósa. Á síðustu fimm árum hafa fjölmargar íslenskar og erlendar konur nýtt sér þessa þjónustu í Brjóstaklíníkinni.
Á Íslandi eru starfandi samtök, BRAKKA samtökin (brca.is ) sem hafa haldið utan um fræðslu og réttindi þeirra er greinast með erfðabreytingu sem tengist aukinni áhættu á brjóstakrabbameini.
FYRIRBYGGJANDI BRJÓSTNÁM OG ENDURUPPBYGGING BRJÓSTA
Kristján Skúli, brjóstaskurðlæknir, hefur sérhæft sig sérstaklega í þessum tegundum áhættuminnkandi brjóstnámsaðgerða og vinnur einnig á þessu sviði í Bretlandi við “The Nottingham Breast Institute”.
Aðstæður til að framkvæma áhættuminnkandi brjóstnámsaðgerðir og brjóstauppbyggingu í Klíníkinni Ármúla eru eins og best gerist. Lögð er áhersla á að bjóða upp á persónulega og einstaklingsmiðaða þjónustu. Þverfaglegt teymi sér svo um að annast hverja konu við eftirmeðferðina, þ.e. hjúkrun, sjúkraþjálfun o.fl.
Samningur er við Sjúkratryggingar Íslands um greiðsluþátttöku við þessar aðgerðir og er því grunnkostnaður við skurðaðgerðina sambærilegur við það að aðgerðin væri framkvæmd annars staðar innan íslenska heilbrigðiskerfisins. Upplýsingar um kostnaðarþátttöku sjúklings er að finna á vef Sjúkratrygginga Íslands, sjukra.is

FEGRUNARAÐGERÐIR Á BRJÓSTUM
Auk þess að bjóða upp á allar tegundir hefðbundinna fegrunaraðgerða á brjóstum, svo sem brjóstastækkanir og brjóstaminnkanir, þá býður Kristján Skúli upp á sérhæfða þjónustu fyrir konur sem vilja láta fjarlægja brjóstapúða og ná sem bestum árangri varðandi útlit á eftir.
Í þessum aðgerðum nýtir Kristján Skúli m.a. þá reynslu sem hann hefur öðlast við lagfæringar og uppbyggingar á brjóstum við eða eftir aðgerðir vegna brjóstakrabbameins. Oftast er möguleiki á að ná góðum árangri varðandi útlit eftir að púðar eru fjarlægðir og eru fjölmargar tegundir aðgerða í boði. Það er mikilvægt að þessar aðgerðir séu sniðnar að þörfum og vilja hverrar konu og leggur Kristján Skúli mikinn metnað í að bjóða upp á slíka þjónustu. Kostnaður við þessar aðgerðir fer eftir aðgerðartegund (sjá verðlista).
Einnig sinnir Kristján Skúli öllum aðgerðum vegna góðkynja stækkunar brjósta hjá karlmönnum (gynaecomastia).
LAGFÆRINGAR Á BRJÓSTUM EÐA UPPBYGGINGAR Á BRJÓSTUM EFTIR AÐGERÐIR VEGNA BRJÓSTAKRABBAMEINS
Kristján Skúli býður upp á sérhæfða þjónustu og skurðaðgerðir fyrir konur sem hafa áður gengist undir skurðaðgerðir vegna brjóstakrabbameins. Annað hvort er um að ræða lagfæringar á brjóstum eftir hlutabrjóstnám (fleygskurð) eða síðbúnar brjóstauppbyggingar hjá konum sem hafa áður gengist undir brjóstnám. Flestar þessara aðgerða eru framkvæmdar skv. samningi við Sjúkratryggingar Íslands og er því grunnkostnaður fyrir konurnar við þessar skurðaðgerðir sambærilegur við það að þær leituðu annað innan íslenska heilbrigðiskerfisins.
Upplýsingar um kostnaðarþátttöku sjúklings er að finna á vef Sjúkratrygginga Íslands, www.sjukra.is
RÁÐGJÖF, AÐGERÐIR OG EFTIRLIT GÓÐKYNJA BRJÓSTAMEINA
Kristján Skúli sinnir ráðgjöf og skurðaðgerðum, ef þörf er á, vegna allra þekktra góðkynja meina í brjóstum.
Meirihluti þessara aðgerða eru framkvæmdar skv. samningi við Sjúkratryggingar Íslands.
LEIÐANDI SÉRFRÆÐINGUR Á SÍNU SVIÐI

KRISTJÁN SKÚLI ÁSGEIRSSON
Brjóstaskurðlæknir
Brjóstaskurðlæknir með sérhæfingu í aðgerðum vegna brjóstakrabbameina og uppbyggingum eftir slíkar aðgerðir, fyrirbyggjandi brjóstnámi vegna BRCA og annarra hááhættugena og öllum fegrunaraðgerðum á brjóstum