Starfsfólk
Svanheiður Lóa Rafnsdóttir
Sérfræðingur í brjóstaskurðlækningum
Svanheiður Lóa er sérfræðingur í brjóstaskurðlækningum, brjóstakrabbameinsaðgerðum, áhættuminnkandi aðgerðum, brjóstauppbyggingaraðgerðum og fegrunaraðgerðum á brjóstum. Hún er einnig með mikla reynslu í aðgerðum og meðferðum á holhönd ásamt því sinnir hún meðferðum við óhóflegri svitamyndun og botoxmeðferðum.
Hún hefur víðtæka reynslu og þekkingu á sviði brjóstaheilsu og forvörnum gegn brjóstakrabbameini. Heildræn þjónusta með áherslu á kvenheilsu hefur verið sérstakt áhugamál Svanheiðar.
Hún flutti heim til Íslands árið 2018 eftir langa dvöl erlendis þar sem hún las læknisfræði, stundaði sérnám í skurðlækningum og síðar meir starfaði sem sérfræðingur í brjóstaskurðlækningum og almennum skurðlækningum.
Svanheiður las læknisfræði við Háskólann í Hamborg í Þýskalandi þar sem hún hlaut almennt lækningaleyfi. Við tók sérnám í skurðlækningum á skurðlækningadeild Sahlgrenska háskólasjúkrahússins í Gautaborg. Að loknu sérnámi starfaði hún sem sérfræðingur á brjóstaskurðlækningadeild og almennri skurðlækningadeild Sahlgrenska sjúkrahússins í Gautaborg þar sem hún starfaði við krabbameinsskurðlækningar, þ.m.t. aðgerðir vegna sortuæxla í húð, fitu-/sogæðabjúgs og brjóstaskurðlækningar með áherslu á brjóstauppbyggingar og áhættuminnkandi brjóstaaðgerðir.
Árið 2018 hóf hún störf á Landspítala þar sem hún var í fararbroddi við uppbyggingu brjóstaskurðlækningadeildar og Brjóstamiðstöðvar Landspítala. Árið 2022 var hún ráðin yfirlæknir brjóstaskurðlækningadeildar og Brjóstamiðstöðvar Landspítala. Hún hefur einnig komið að og sinnt fjölbreyttum innlendum og alþjóðlegum verkefnum á sviði vísinda, kennslu og rannsóknastarfs innan sinnar sérþekkingar.
Samhliða starfi sínu á Klíníkinni er Svanheiður einnig starfandi yfirlæknir Brjóstamiðstöðvar Landspítala.