top of page
Search

Guðrún Ása ráðin framkvæmdastjóri Klíníkurinnar Ármúla



Klíníkin hefur ráðið Guðrúnu Ásu Björnsdóttir, sérfræðilækni, sem framkvæmdastjóra. Guðrún Ása mun hefja störf á nýju ári. Undanfarið eitt og hálft ár hefur hún gegnt stöðu faglegs aðstoðarmanns heilbrigðisráðherra en lætur nú af þeim störfum.

Guðrún Ása er með BS-gráðu í lífefnafræði frá Háskóla Íslands, MB ChB-gráðu í læknisfræði frá Warwick-háskóla í Bretlandi og leggur stund á doktorsnám í læknisfræði við Háskóla Íslands.

Guðrún Ása er með sérfræðilæknaleyfi í lyflækningum og hefur víðtæka starfsreynslu innan heilbrigðiskerfisins. Hún hefur samhliða störfum sínum sem læknir sinnt rannsóknum og kennslu við Háskóla Íslands.

Guðrún Ása var formaður Félags almennra lækna, sat í stjórn Læknafélags Íslands og útgáfustjórn Læknablaðsins árin 2018-2020. Hún sat í læknaráði Landspítalans árin 2017-2020. Hún hefur setið í ýmsum nefndum og starfshópum á vegum heilbrigðisráðuneytisins, Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Læknafélags Íslands. Hún sat m.a. í samninganefnd Læknafélags Íslands árin 2019-2021 og var formaður samninganefndar LÍ.


Um Klíníkina

Sigurður Ingibergur Björnsson, stærðfræðingur, var ráðinn framkvæmdastjóri Klíníkurinnar árið 2020. Undir hans stjórn hefur Klíníkin dafnað og vaxið gríðarlega og hefur starfsemin meira en þrefaldast. Sigurður Ingibergur lætur af framkvæmdastjórastarfinu þegar Guðrún Ása tekur við á næsta ári og mun þá taka við stjórn dótturfélags Klíníkurinnar þar sem þróaðar eru hugbúnaðarlausnir sem nýtast fyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að gera heilbrigðiskerfið einfaldara og skilvirkara.

Hjá Klíníkinni starfa 23 sérfræðilæknar og 47 hjúkrunarfræðingar og aðrir sérhæfðir starfsmenn. Starfsfólk leggur sig fram við að veita persónulega þjónustu með hagsmuni skjólstæðinga í öndvegi. Meginmarkmið Klíníkurinnar er að leggja grunn að auknum lífsgæðum til langs tíma.


Helstu sérsvið Klíníkurinnar eru tengd bæklunarlækningum, brjóstalækningum, efnaskiptaaðgerðum, kvensjúkdómalækningum, lýtalækningum og meltingarlækningum. Klíníkin er með samning við Sjúkratryggingar Íslands um nokkra aðgerðarhópa og hefur unnið með stjórnvöldum við að vinna niður biðlista eftir aðgerðum, meðal annars liðskiptiaðgerðum. Starfsfólk Klíníkurinnar starfar sem sterk liðsheild við að greina vanda, ráðleggja um leiðir til lausna, framkvæma nauðsynlegar aðgerðir og fylgja þeim eftir í samstarfi við sjúklingana þannig að bati verði eins varanlegur og frekast er unnt.

bottom of page