
UPPLÝSINGAR FYRIR AÐGERÐ
Fyrir aðgerðina hittir þú svæfingalækni. Hann fer yfir með þér heilsufarsblaðið, lyfjanotkun, ofnæmi og óþol. Mikilvægt er að þú ræðir þá fylgikvilla (t.d. ógleði, uppköst) sem þú hefur fundið fyrir við fyrri svæfingar eða deyfingar, ef slíkt er fyrir hendi. Fyrir aðgerðina færð þú verkjalyf í töfluformi sem verka í og eftir aðgerðina. Einnig er settur æðaleggur í handarbak eða handlegg, hann er notaður til að gefa þér innrennslisvökva og svæfinga- og verkjalyf.
FASTA
Nauðsynlegt er að fasta fyrir aðgerð til að minnka hættu á fylgikvillum í tengslum við aðgerðina. Eftirfarandi gildir:
-
EKKI má borða mat síðustu 6 klukkustundirnar fyrir aðgerð
-
DREYPA má á tærum drykkjum þar til 2 klukkustundir eru til aðgerðar. Tær drykkur er agnarlaus og án fitu, t.d. vatn, tær ávaxtasafi, te og kaffi (án mjólkur)
REYKINGAR / TÓBAK
Við ráðleggjum öllum að hætta reykingum a.m.k. 2 vikum fyrir aðgerð og a.m.k. í 6 vikur eftir aðgerð. Líkur á fylgikvillum aukast við tóbaksnotkun þar sem reykingar minnka blóðflæði í húð.
EKKI má nota tóbak eða tyggigúmmí síðustu 2 klukkustundir fyrir aðgerð, ef um stærri lýta-, brjósta- eða bæklunaraðgerðir er að ræða má ekki að nota tóbak í 2 vikur fyrir aðgerð.
FATNAÐUR
Við ráðleggjum þér að koma í sem þægilegustum fatnaði með tilliti til aðgerðar. Föt sem létt er að fara í og úr.
HREINLÆTI
Þú ferð í sturtu heima að morgni aðgerðardags og sleppir öllum kremum og olíum á aðgerðarsvæði, sem og farða í andlit. Þú átt einnig að fjarlægja naglalakk af fingrum ef slíkt er til staðar. Alla skartgripi ráðleggjum við þér að skilja eftir heima þar sem þú mátt ekki hafa skartgripi á þér á skurðstofu.
Á SKURÐSTOFU
Á skurðstofunni eru tengd við þig ýmis tæki til að fylgjast vel með þér á meðan á aðgerð stendur, þetta eru t.d. blóðþrýstingsmælir, súrefnismettunarmælir og hjartasíriti.
Á VÖKNUN
Eftir aðgerðina er farið með þig á vöknun, þar sem áfram er fylgst vel með blóðþrýstingi og súrefnismettun. Í flestum tilfellum þarft þú að liggja í 1-3 tíma á vöknun eftir aðgerð, mismunandi eftir tegund aðgerðar og lengd svæfingar. Mikilvægt er að þú látir vita ef þú ert með verki eða ógleði, svo hægt sé að bregðast við með viðeigandi lyfjagjöf. Ef notuð hefur verið kokgríma eða barkarenna við svæfinguna, verður stundum vart við hálssærindi en þau hverfa yfirleitt á 1-2 dögum.
FYLGD OG AKSTUR
Þú ert ófær um akstur ökutækja í 10 klst eftir svæfingu. Ef aðgerðin er gerð í svæfingu óskum við eftir að einhver komi og sæki þig og fylgi þér heim.