top of page
Search

Reynslusaga Kötlu - magaermi, svuntuaðgerð, brjóstastækkun og brjóstalyfting

Ég heiti Katla og er 31 árs gömul

Árið 2018 var ég komin á virkilega slæman stað bæði líkamlega og andlega aðeins 29 ára gömul, komin á háþrýstilyf og átti orðið erfitt með flest allt. Ég var orðin 152 kg og var komin á ákveðna endastöð í að reyna að vera við góða heilsu. Síðan ég man eftir mér hef ég verið að berjast við aukakílóin og prufað alla kúra sem hafa komið á markaðinn. Ég hafði oft hugsað út í að fara í einhvers konar offituaðgerð en hafði haft fordóma fyrir því án þess að hafa kynnt mér það á einn né neinn hátt. Á þessum tímapunkti náði ég loksins að leggja hrokann til hliðar og bókaði í viðtal hjá Aðalsteini í Klínikinni. Þar var tekið rosalega vel á móti mér, ég fékk allar þær upplýsingar sem ég þurfti til að geta tekið ákvörðun auk þess að fá svör við öllum mínum spurningum.

Í samráði við Aðalstein var niðurstaðan að fara í magaermisaðgerð og mér fannst það líka mest aðlaðandi aðgerðin, þar sem það er minna inngrip en hjáveitan.

Ég fékk tíma í aðgerðina um mánuði eftir viðtalið og fékk þannig nokkrar vikur til að undirbúa mig. Ég fékk hefti með góðum upplýsingum um allan undirbúninginn fyrir aðgerð og hvernig ég ætti að haga mér eftir aðgerðina. Það var til dæmis ráðlagt að minnka matarskammta og kaloríuinntöku og venja mig á þannig á breytt mataræði. Á þessum tíma ákvað ég líka hvað ég mundi innbyrða á fljótandi tímabilinu og mauktímabilinu sem tekur við eftir aðgerð og bjó mér til ákveðið plan.


Aðgerðardagurinn minn var 2. október 2018. Þegar ég mætti á Klínikina var tekið vel á móti mér og fékk ekkert nema gott og vinalegt viðmót að öllu leyti. Að sjálfsögðu var ég frekar stressuð á að vera að fara í aðgerð og pínu hrædd, en það minnkaði þegar læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir tóku á móti mér inná skurðstofu. Aðgerðin gekk rosalega vel og það var vel hugsað um mig þessa nótt sem ég gisti hjá þeim.


Þessi aðgerð breytti öllu í lífi mínu!! Ég gat hætt á háþrýstilyfjum um tveimur vikum eftir aðgerð. Ég gat hreyft mig betur á allan hátt, bara það að klæða mig í sokka var nánast orðið ómögulegt fyrir aðgerðin. Ég byrjaði fljótt að taka eftir öllu litlu hlutunum sem reyndust mér erfiðir áður og voru allt í einu orðnir svo miklu auðveldari. Ég vil nefna að það er ÓTRÚLEGA MIKILVÆGT að taka hugarfarið í gegn um leið og þessi ákvörðun er tekin og vinna vel í sjálfinu í kjölfarið. Viðhorfin mín gagnvart mat og hreyfingu breyttust gjörsamlega og finnst mér gaman í dag að spá í því hvað ég set ofan í mig og finna fyrir hvað er gott fyrir líkamann minn og hvað ekki, sem áður reyndist mér leiðinlegt og erfitt. Í dag rúmlega tveim árum eftir aðgerð hef ég aldrei verið á betri stað andlega og líkamlega og þetta er aðgerð sem ég mæli hiklaust með og mun alltaf mæla með að gera þetta gegnum Klínikina, þar sem þjónustan að mínu mati er frábær í alla staði.


Þegar eitt og hálft ár var liðið frá magaermisaðgerðinni var ég búin að missa kringum 70 kíló. Ég var þar af leiðandi með mikið af aukahúð og brjóstin mín höfðu hreinlega yfirgefið mig án þess að skilja eftir kveðjubréf. Ég leitaði því aftur á Klínikina til að kynna mér svuntuaðgerð til að fjarlægja aukahúðina og brjóstalyftingu og -stækkun til að lagfæra brjóstin. Eftir viðtal og skoðun fór ég í aðgerð hjá Helenu lýtalækni í september 2020. Þá voru liðin tvö ár frá magaerminni og ég búin að standa í stað á vigtinni og halda mér í góðu formi í um hálft ár. Þessa ákvörðun tók ég um sumarið 2020 og hafði því nægan tíma til að undirbúa mig. Ég aflaði mér upplýsinga héðan og þaðan, talaði við konur sem höfðu farið í þessar aðgerðir áður og fékk ráð. Ég ákvað síðan að stofna instagramaðgang sem er lokaður þar sem konur fengu að fylgjast með ferlinu.


Eins og áður tók starfsfólkið svakalega vel á móti mér í afgreiðslunni og Helena er algjört æði! Ég hafði talað fyrst við Jóhannes lýtalækni og leist sjúklega vel á hann. Því miður komu upp þær aðstæður að það stóð til að fresta þyrfti aðgerðinni þannig ég leitaði til Helenu til þess að geta komist á þeim tíma sem ég var búin að fá frí og fleira.

Ég var því aftur á leið í aðgerð og aftur eins stressuð fyrir svæfingunni og aðgerðinni, en starfsfólkið er ótrúlega fært um að róa mann fyrir aðgerðina. Aðgerðin gekk mjög vel og þegar ég vaknaði voru ekkert nema bros og fallegt viðmót sem blasti við mér. Ég gisti aftur eina nótt á legudeildinni og voru hjúkrunarfræðingar sem kíktu reglulega á mig, hjálpuðu mér og voru alltaf aðgengilegar.

Þessi aðgerð breytti lífi mínu enn meira! Ég er sáttari í eigin skinni og finnst ég hreinlega bara vera alger bomba í dag, laus við flabbandi aukapulsuna framan á mér og komin með kvenlegri líkama. Útkoman var glæsileg og ég gæti ekki hafa beðið um betri stað til að gera þetta og tala ekki um allt fólkið sem kom að þessu!


Eftir aðgerðina þurfti að skoða mig nokkrum sinnum og ég lenti í smá veseni með naflann og þar opnaðist lítill skurður. Það var alltaf minnsta mál í heimi að ná sambandi við þau og voru þau alltaf tilbúin til að taka á móti mér ef það var eitthvað!


Mig langar að þakka öllu starfsfólki Klíníkurinnar fyrir allt sem þau hafa gert fyrir mig og ég mun klárlega leita til þeirra ef ég verð í hugleiðingum með aðrar aðgerðir og mæli allan daginn með þeim.







bottom of page