Einar Örn Einarsson 

| Svæfinga- og gjörgæslulæknir

Einar Örn er sérfræðingur í svæfingum, deyfingum og gjörgæslulækningum. Hann hefur sérstakan áhuga á ómstýrðum deyfingum og svæfingum við heila- og taugasjúkdóma ásamt gjörgæslulækningum og hefur jafnframt sinnt svæfingum og deyfingum við dagdeildarskurðlækningar með áherslu á forvarnir gagnvart ógleði og uppköstum eftir aðgerðir (PONV).

Nám og störf

Einar Örn lauk læknanámi við Háskóla Íslands 1996. Árið 1998 var stefnan tekin á Berlín til sérfræðináms í svæfingum og gjörgæslulækningum við Unfallkrankenhaus Berlin.

Eftir þrjú góð ár í Þýskalandi var haldið til Stokkhólms og náminu lokið á Karolinska háskólasjúkrahúsinu 2004. Þar starfaði Einar sem sérfræðingur í þrjú ár áður en hann hóf störf á Landspítala árið 2007 og þar starfar hann enn samhliða starfi á Klíníkinni Ármúla frá 2015.

Einar Örn lauk evrópska sérfræðilæknaprófinu í svæfingum 2004. Hann bætti við sig undirsérgrein í gjörgæslulækningum árið 2010, tveggja ára námi á vegum norrænu svæfinga- og gjörgæslusamtakanna (SSAI).

Einar Örn er virkur í kennslu læknanema og hefur annast kennslu fyrir deildarlækna á svæfingadeild og staðið fyrir námskeiðum hérlendis og erlendis. Þá hefur hann setið í kennslunefnd SSAI undanfarin 8 ár og jafnframt verið fulltrúi í læknaráði Landspítalans frá 2011.

Utan vinnutíma

Einar er mikill söngmaður og félagi í Mótettukórnum. Hann þenur raddböndin reglulega í Hallgrímskirkju og víðar ef svo ber undir. Þá hefur skíðaíþróttin fylgt honum frá unga aldri, enda fjallaloftið einstaklega mannbætandi.

Tímapantanir í síma 519 7000 eða á heimasíðu Heilsuveru

Höfundarréttur © Klíníkin Ármúla, öll rétttindi áskilin

 Ármúla 9, 108 Reykjavík, Iceland // mottaka@klinikin.is