top of page
Nude248931.jpg
BLÁÆÐA_edited.png

ÆÐASKURÐLÆKNINGAR

Bláæðahnútar og tengd vandamál eru algeng hjá þeim sem eru komin yfir miðjan aldur. Oft koma þessi vandamál fyrr hjá konum en tíðnin er annars svipuð hjá kynjum. 

Nútíma aðgerðir á æðahnútum eru gerðar með Laser og brottnámi æðahnúta en einnig er hægt að meðhöndla minni æðahnúta með æðaherpandi efni sem fær þá til að eyðast með tímanum. 

Lögð er áhersla á þverfaglega nálgun og þannig stuðla að heildstæðri umgjörð þeirrar starfsemi sem tryggir að sjúklingar fái fyrsta flokks þjónustu og meðferð.

ÆÐAHNÚTAR

æðahnútar

HVAÐ ERU ÆÐAHNÚTAR?

Æðahnútar er sjúkdómur í bláæðum líkamans, nánast eingöngu í ganglimum, sem geta myndast hvar sem er á fótleggjum, en koma oftast fram aftan á kálfum eða innan á fótleggjum. Í bláæðum eru lokur sem sjá til þess að blóðið flæði bara í eina átt þ.e. frá útlimum til hjarta og má segja að æðarnar séu í raun að vinna á móti þyngdaraflinu. Ef þessar lokur bila þá myndast bakflæði sem veldur auknum þrýstingi, sem veldur því að æðarnar hnykkla sig. Í þessum hnykklum myndast blóðpollar og þetta köllum við í daglegu tali æðahnúta, sem eru bláir eða dökkfjólubláir á lit. Æðahnútar geta verið án einkenna, það er að einungis er um lýti að ræða. Flestir hafa þó einhver einkenni sem stundum geta verið óljós. Þreyta, pirringur, verkur, bjúgur og sinadráttur eru einkenni sem eru algeng. Ef æðahnútar hafa staðið lengi ómeðhöndlaðir geta komið fram varanlegar skemmdir í húðinni og einnig geta myndast sár. Þessi sár eru oft á tíðum mjög langvinn og erfið í meðferð og eru gjörn að koma aftur.

GREINING ÆÐAHNÚTA

Greining hefst með viðtali við lækni, þar sem farið er yfir einkenni, heilsufarssögu og almenn skoðun framkvæmd. Að auki er framkvæmd ómskoðun þar sem ástand bláæða grunna og djúpa kerfis er skoðuð og þannig er umfang sjúkdómsins metin og hvaða aðgeð er nauðsynleg ef reynist þörf á henni. 

MEÐFERÐ ÆÐAHNÚTA

Æðahnútar hverfa ekki nema með aðgerð. Nútíma æðahnúta aðgerðir eru gerðar í staðdeyfingu með innæðaaðgerð. Einungis sá hluti æðakerfisins sem er bilaður er meðhöndlaður og er ómskoðun notuð til greiningar. Rannsóknir benda til að það sé æskilegt að einstaklingar með æðahnúta og breytingar í húð haldi kjörþyngd sinni til að koma í veg fyrir að æðahnúta sjúkdómurinn ágerist. Heilbrigður lífsstíll og æfingar geta hugsanlega seinkað því að æðhnútar versni. Teygjusokkar draga oft úr einkennum tengdum æðahnútum. Mikilvægt er að meðhöndla æðahnútanna áður en húðin skaðast því oft eru þær breytingar óafturkræfar.

EINKENNI ÆÐAHNÚTA

ORSAKIR/ÁHÆTTUÞÆTTIR

  • Eymsli eða verkir

  • Þyngdartilfinning eða þreyta

  • Bjúgur

  • Kláði eða pirringur

  • Púlserandi vöðvakrampi í neðri hluta fótleggja

  • Erfðir

  • Aldur

  • Kyn

  • Þyngd

Misjafnt er hve mikil einkennin eru og hvenær dags þau koma fram. Þau verða oft meira áberandi við langar stöður og einkenni því mest seinni part dags. Þegar hækkað er undir fótum þá yfirleitt dregur úr óþægindunum.

ÆÐAHNÚTAAÐGERÐ

æðahnútaaðgerðir

UNDIRBÚNINGUR FYRIR AÐGERÐ

Vertu fastandi frá miðnætti fyrir æðahnútaaðgerð nema um annað hafi verið rætt. Þú mátt drekka tæra vökva allt að 2 tímum fyrir æðahnútaaðgerð. Ekki reykja aðgerðardag.
Farðu í sturtu að morgni og þvoðu þér með venjulegri sápu.
Ekki nota krem á fætur. Ágætt er að kaupa teygjusokk upp að hné fyrir æðahnútaaðgerð. Ekki er þörf á að taka teygjusokkinn með sér þar sem hann er ekki notaður fyrr en umbúðir eru farnar af eftir tvo sólarhringa.
Þú færð umbúðir á fætur eftir æðahnútaaðgerð sem eru nokkuð fyrirferðarmiklar. Því er gott að vera í mjúkum, víðum buxum og vera í skóm sem eru rúmir og létt er að fara í og úr.

​Á SKURÐSTOFU

Allir æðahnútar og æðaslit eru merktir með tússpenna og gerð er ómskoðun. Á meðan aðgerð er framkvæmd er lögð staðdeyfing sem þú finnur eins og smá nálarstungur. Það tekur stuttan tíma að leggja deyfinguna (3 til 5 mínútur) og eftir það áttu ekki að finna fyrir neinum verkjum. Það er gott ef þú lætur vita ef þú þrátt fyrir allt finnur til, alltaf er hægt að bæta á staðdeyfingu. Aðgerðin tekur um einn til tvo tíma og fer það eftir því hvað mikið þarf að gera. Eftir aðgerð eru lagðar á umbúðir sem eru vafðar á fremur fast. Þessar umbúðir eru hafðar á í 48 tíma eftir aðgerð. Klukkutíma eftir aðgerð ferð þú svo aftur heim en áður færð þú léttan málsverð. ​​

 

Notast er við laser af nýjustu gerð (ELVeS Radial 2ring™) sem er alþjóðlega viðurkenndur sem einn af þeim bestu og komin er mikil reynsla af notkun hans. Æðahnútaðgerðin er gerð í staðdeyfingu og ekki er þörf á svæfingu þegar aðgerð er framkvæmd á þennan hátt. Aðgerðin er framkvæmd í ómskoðun. Um er að ræða innæðaaðgerð sem þýðir að ekki er opnað inn á æðina á venjulegan hátt heldur er hún meðhöndluð í staðinn með laserþræðinum sem færður er inn í bláæðina og staðsettur þannig að einungis sá hluti æðarinnar sem er bilaður er meðhöndlaður. Æðinni er lokað með þessari tækni og er hún ekki sjáanleg lengur með ómskoðun nokkrum mánuðum síðar. Engir skurðir eru gerðir og ekkert er saumað.

Æðahnútarnir eru fjarlægðir að lokinni laser meðferð. Gert er nálargat (1.0-1.2 mm) í húðina og æðahnútar eru veiddir upp með áhaldi sem líkist heklunál. Mjög lítil eða engin ör verða sjáanleg og útlitslega er því árangur mjög góður.

EFTIR AÐGERÐ

Einhver dofatilfinning getur verið nálægt stungugötunum í einhvern tíma eftir aðgerð. Það er þó sjaldgæft. Yfirleitt kemur tilfinningin tilbaka eftir nokkra daga en einstaka sinnum getur þetta varað lengur. Sýkingar eru mjög sjaldgæfar enda götin sem eru gerð mjög lítil. Ef þú sérð roða, finnur fyrir hita eða öðrum óþægindum sem benda til sýkingar þá hefur þú samband við okkur.

Blóðtappi eftir æðahnútaaðgerð er mjög sjaldgæfur. Með því að vera á hreyfingu minnkar þú líkurnar á blóðtappa. Einkenni blóðtappa geta verið skyndilegur verkur í kálfa sem þú upplifir sem spenntur og heitur.

Ef þú hefur einhver einkenni sem þér finnst óvenjuleg eftir æðahnútaaðgerð þá hefur þú samband. Tveim vikum eftir æðahnútaaðgerð getur þú fundið fyrir smávægilegum verkjum á þeim stað þar sem laser meðferðin var gerð. Það er ekkert hættulegt og nægir að taka verkjatöflu ef á þarf að halda. Smá bólgur í húð kringum götin er ekkert óvenjulegt að finna fyrir, það hverfur eftir nokkra daga. Mar í húð þar sem æðahnútar voru hverfa á nokkrum dögum eða vikum.

Eftir æðahnútaaðgerð er mikilvægt að leggjast ekki bara fyrir þegar heim er komið. Ágætt að fara í smá göngutúr heima við.

Umbúðir eru teknar af 48 tímum eftir æðahnútaaðgerð. Best að fara í sturtu og fjarlægja allar umbúðir í sturtunni. Þerra síðan húðina og fara í teygjusokkinn. Nota á teygjusokkinn næstu tvær vikur að degi til (í lagi að nota hann lengur). Ekki er óalgengt að smávegis vökvi komi frá litlu sárunum. Ef það gerist má setja plástur á þá staði. Þar sem æðahnútar hafa verið fjarlægðir verða smá holur og mar. Þessi smáu göt geta verið sýnileg í einhverja mánuði eftir aðgerð.

Þú mátt fara í vinnu eins fljótt og þú treystir þér til. Flestir eru komnir til vinnu aftur eftir 1 til 3 daga.
Þú mátt fara að æfa eftir að umbúðir eru farnar en muna eftir að nota teygjusokkinn fyrstu 2 vikurnar. Ekki fara í sund eða nota baðkar fyrstu 2 vikur eftir aðgerð. Verkir eftir aðgerð eru sjaldgæfir og sjaldan er þörf á verkjalyfjum.


Ef þú þrátt fyrir allt ert með verki er gott að taka venjulegar verkjatöflur t.d paracetamol 500 mg, 2 töflur þrisvar á dag.
Yfirleitt er endurkoma eftir aðgerð eftir eina til tvær vikur.

Nude249467.jpg

Leyfðu fótunum að njóta sín

ÆÐASLIT

æðaslit

HVAÐ ERU ÆÐASLIT?

Nálægt yfirborði húðarinnar liggja örfínar bláæðar sem eiga það til að stækka og mynda háræðaslit. Æðaslit felur ekki í sér að æðarnar slitni, þó svo nafnið gefi það til kynna, heldur myndast það þegar æðarnar víkka út þannig að þær verða sjáanlegar. Æðaslit er skylt æðahnútum en hvorttveggja verður, vegna bilunar í bláæðum. Æðaslit er ekki eingöngu bundið við fótleggi en er þó algengast þar.

MEÐFERÐ ÆÐASLITA

Efni er sprautað inn í æðaslitið sem fær æðavegginn til að leggjast saman og að endingu skemmast. Efnið sem notast er við heitir Aethoxysklerol og er í tveimur mismunandi styrkleikum, 0.5% eða 1% og fer það eftir stærð æðaslitsins hvor lausnin er notuð. Stundum er útbúin froða úr lausninni með því að blanda efninu saman við loft.

Æðaslitið er áfram til staðar eftir meðferð en ekkert blóð rennur lengur um slitið. Oft er húðin í kringum og meðhöndlaða æðaslitið upphleypt á eftir og getur tekið vikur eða jafnvel mánuði að sjá endanlegan árangur. Þolinmæði er hér mikilvæg. Meðferð á æðasliti er nánast sársaukalaus og tekur um 30 mínútur. Stundum nægir ekki með eina meðferð og þarf þá að endurtaka meðferðina að nokkrum mánuðum liðnum.

Æðaslit eru yfirleitt meðhöndluð 4 mánuðum eftir æðahnútaaðgerð. Æðaslit minnka oft þegar æðahnútar eru teknir. Þegar eingöngu er um æðaslit að ræða en engir æðahnútar nægir oft ein meðhöndlun. Meðferð á æðasliti kostar á bilinu 18 000 til 36 000 kr.

Meðferðin er einföld og er gerð á stofu án slævingar eða svæfingar.

æðaslit.jpg

SÉRFRÆÐINGUR

Gudmundur Dan 1_edited.jpg

GUÐMUNDUR DANÍELSSON

Æðaskurðlæknir

bottom of page