Leiðandi sérfræðingar á sínu sviði //

Hjálmar Þorsteinsson er bæklunarskurðlæknir með sérhæfingu í liðskiptaaðgerðum á mjöðmum og hnjám. 

Ingi Hrafn Guðmundsson  er bæklunarskurðlæknir með sérhæfingu í handaraðgerðum auk annarra aðgerða á efri útlimum.

Báðir sinna þeir einnig öllum almennum bæklunarlækningum bæði hvað varðar greiningu, meðferð og aðgerðir.

Hjálmar Þorsteinsson
Hjálmar Þorsteinsson

Bæklunarlæknir

Hjálmar Þorsteinsson
Hjálmar Þorsteinsson

Bæklunarlæknir

1/1

Greining, meðferð, eftirlit //

Stoðkerfisvandi er ein algengasta ástæða komu til læknis. Öll finnum við fyrir einkennum frá stoðkerfinu, oftast eru þau álagstengd og eru ekki sjúkleg. Margir þjást þó af sjúkdómum í stoðkerfinu þar sem hægt er að minnka einkenni með réttri meðhöndlun.

Við leggjum áherslu á þverfaglega nálgun og vinnum því náið með gigtarlæknum og sjúkraþjálfurum.  Þannig stuðlum við að heildstæðri umgjörð sem tryggir að sjúklingar fá fyrsta flokks þjónustu og meðferð.

LIÐSKIPTA AÐGERÐ

Er endanlegt meðferðarúrræði liðskemmdar. Engin lyf eru til í dag sem snúa við þróun liðskemmda, þessa vegna þurfa sumir að gangast undir liðskipti til að fá bót sinna meina.

Liðskipti á hné og mjöðm eru aðgerðir sem bæta lífsgæði einstaklinga, markmiðið er að verkir frá liðnum heyri sögunni til og hreyfifærni verði betri.

Yfir 95% einstaklinga sem gangast undir liðskipti hafa enn sama lið 10 árum síðar, ending gerviliða fer batnandi.

Orsök og einkenni slitgigtar //

Slitgigt er vegna ójafnvægis í niðurbroti og endurbyggingu liðbrjósks, þannig verður liðbrjóskið þunnara og liðurinn fer að mynda beinnabba við liðbrúnir sem skerðir hreyfigetu liðsins. Þegar liðskemmdirnar eru orðnar miklar er oft allt liðbrjósk horfið sem veldur því að beinið er bert, á sama tíma breytist magn og gæði liðvökvans þannig að liðurinn bólgnar upp við álag. Þetta er ástæða þriggja helstu einkenna slitgigtar:

 • Verkir við álag

 • Skert hreyfigeta

 • Stirðleiki

Ástæða þess að sum okkar þróa með sér slitgigt er að mestu óþekkt. Það er þó ljóst að ástæðan er fjölþætt og sjaldan er eingöngu ein ástæða þar að baki. Nokkrir áhættuþættir eru vel þekktir:

 • Kyn (konur eru í meiri áhættu að þjást af slitgigt en menn)

 • Aldur (liðbrjóskið eins og aðrir vefir líkamans verða fyrir öldrun og tapa gæðum)

 • Þyngd (offituvandamál eykur líkur á slitgigt, sérstaklega í hnjám)

 • Fyrri áverkar (brot eða alvarlegir liðbandaáverkar)

Heilbrigt hné
Alvarleg slitgigt

Röntgenmynd af heilbrigðu hné

Röntgenmynd af mjög slitnu hné

SLITGIGT OG AÐRAR ORSAKIR LIÐSKEMMDA

Slitgigt er algengasta orsök liðskemmda þótt aðrar ástæður séu vel þekktar. Þar á meðal eru gigtarbólgusjúkdómar, eftirstöðvar fyrri áverka (liðbandsáverkar, brot) svo og enn sjaldgæfari orsakir eins og meðfæddir gallar.

Meðferð //

Slitgigt er mjög algeng, þannig er greinanleg slitgigt á röntgenmynd hjá um 5% af einstaklingum á aldrinum 35-54 ára. Slitgigt fer vaxandi með aldri, hlutfall þeirra sem eldri eru en 65 ára og þjást af slitgigt er hátt. Þó er það ekki þannig að allir sem hafa slitbreytingar hafi einkenni af sjúkdómnum. 

Flestir þurfa á lítilli eða engri meðferð að halda, oft duga ráðleggingar um breyttan lífstíl þar sem áhersla er á að vinna gegn ofþyngd, stunda reglulega hreyfingu og nota almenna einkennaminnkandi meðferð.

Ef einkenni eru orðin dagleg og versna við álag þarf oft að grípa til kröftugri einkennaminnkandi meðferðar svo sem lyfjameðferð (paracetamól og/eða bólgueyðandi lyf eins og naproxen, íbúfen og voltaren), ekki er ráðlegt að nota þyngri verkjalyf eins og morfínskyld lyf. Ef þessi meðferð dugar ekki til að halda niðri einkennum er komin ástæða til að leita annarra meðferðarúrræða t.d. liðskipta.

Meðferðarþríhyrningur slitgigtar //

Meðferðarþríhyrninur slitgigtar

Fyrir aðgerð //

Við leggjum mikla áherslu á að þú sért vel undirbúin/-nn fyrir aðgerðina. Þeir þættir sem eru mikilvægastir eru:

 • Meðferð þeirra sjúkdóma sem þú glímir við sé eins góð og mögulegt er, þetta á sérstaklega við þig sem ert með sykursýki, hjarta- eða lugnasjúkdóma.

 • Sjúkraþjálfun sé regluleg og þú sért búin/-nn að læra að nota hækjur og hvernig þú gengur í tröppum eftir aðgerðina. Okkar sjúkraþjálfarar hjálpa þér með þetta.

 • Heimilið sé tilbúið þannig að þér líði sem best heima eftir aðgerðina. Við mjaðmaskipti ráðleggjum við oft t.d. klósetthækkun. Einnig er gott ráð að fjarlægja lausar mottur þar sem þær geta verið fallvaldur.

Um 1-2 vikum fyrir aðgerðina kemur þú í innritunarsamtal þar sem farið er yfir þína heilsufarssögu, hjartalínurit er tekið og blóðprufur teknar. Þú hittir þinn skurðlækni, svæfingarlækni, hjúkrunarfræðing og sjúkraþjálfara. Við biðjum þig um að svara ítarlegum spurningarlista sem metur þína færni og verki við athafnir daglegs lífs. Við munum síðan biðja þig um að svara sömu spurningum 6 og 12 mánuðum eftir aðgerðina.

Aðgerð og lega //

Þú kemur til okkar að morgni aðgerðardags, þú færð öll fyrirmæli um hvenær þú mætir og hvenær þú átt að byrja að fasta við innritun.

Sjálf aðgerðin tekur um 1-1,5 klst. Eftir aðgerðina ertu fyrst á vöknun þar sem fylgst er náið með hvernig þér líður. Leið og þú ert vel vöknuð/vaknaður og engin ógleði er til staðar færðu að borða og síðan er komið að því að þú fáir að koma á fætur og byrja að reyna á nýja liðinn. Fyrsta fótaferð er að ganga á klósettið, þetta gerir þú með hjálp okkar og göngugrindar eða með hækjum.

Þú færð svo fljótlega að fara upp á herbergi þar sem hjúkrunarfræðingur legudeildar tekur á móti þér. Við viljum gjarnan að þú hafir náinn aðstandanda með þér á herberginu fyrstu nóttina. Þannig tryggjum við þinn félagslega stuðning sem er mikilvægur í þínu bataferli.

Flestir eru heimferðarfærir eftir eina nótt, það fer þó eftir hvernig þér gengur með endurhæfinguna, að verkjastilling sé í lagi og engin ógleði sé til staðar.

Eftir aðgerð //

Þegar heim er komið er mikilvægt að fara eftir þeim ráðum sem við gefum þér varðandi hreyfingu eftir aðgerðina. Þú mátt stíga í að fullu, hækjurnar notar þú byrjun til stuðnings og til að bæta jafnvægið.

Um tveimur vikum eftir aðgerðina kemur þú í endurkomu og saumatöku. Þú hefur beint samband við okkur ef einhver vandi er varðandi sárið, hvort sem það er blæðing eða önnur einkenni.

Ef þú ert á vinnumarkaði þarft þú að gera ráð fyrir að vera frá vinnu í um 2-3 mánuði, það fer þó mikið eftir hversu erfið likamlega vinnan er.

Við ráðleggjum þér að stunda sjúkraþjálfun reglulega eftir aðgerðina til að tryggja að þú náir þeim styrk og hreyfigetu sem þarf til að liðurinn reynist þér sem best. Við biðjum þig líka að svara spurningarlista varðandi þína færni og verki 6 og 12 mánuðum eftir aðgerðina.

Verðskrá //

Klíníkin Ármúla hefur endurtekið óskað eftir viðræðum við Sjúkratryggingar Íslands um þjónustusamning varðandi liðskiptaaðgerðir. Ljóst er að aðgengi nú er takmarkað og að biðtími er lengri en Embætti landlæknis hefur skilgreint sem eðlilegan hámarks biðtíma, þ.e. 90 dagar. Af tvennu illu teljum við betri kost að bjóða aðgengi að þjónustunni án kostnaðarþáttöku Sjúkratrygginga Íslands, þótt það sé á kostnað þess að aðgengi sé háð efnahag viðkomandi, fremur en að ástandið haldist óbreytt með löngum biðlistum.

 

Innifalið í verði er allur kostnaður varðandi aðgerð og legu. Legutími er ein nótt. Sjúklingur greiðir því fyrir:

Liðskipti hnéliður:  1.200.000 kr

Liðskipti mjaðmaliður:  1.200.000 kr

Liðskipti hálfur hnéliður: 1.200.000 kr

Kostnaður við hverja aukanótt er 50.000 kr

Hægt er að dreifa greiðslum með greiðslukorti samkvæmt kjörum viðkomandi kortafyrirtækis.

DAGAÐGERÐIR

Eru aðgerðir þar sem þú ferð heim samdægurs. Allar dagaðgerðir bæklunarskurðlækninga falla undir gildandi samning sérfræðilækna og Sjúkratrygginga Íslands.

Allar upplýsingar um kostnaðarþáttöku sjúklinga er að finna á www.sjukra.is

Dagaðgerðir eru oft gerðar í speglun þar skemmdir eða áverkar innan liðar eru lagfærðir, þetta á t.d. við um axlaraðgerðir vegna festu- og sinameina, hnéaðgerðir vegna skemmda á liðþófa eða krossbandaáverka. Aðrar aðgerðir geta verið opnar eins og t.d. handar- og fótaraðgerðir

Speglunaraðgerðir //

Eru aðgerðir þar sem gerð eru litlir skurðir um 1 cm á lengd á 2-3 stöðum í kringum liðinn. Í gegnum einn af skurðunum förum við inn með myndavél þannig að hægt er að skoða liðinn að innan og þannig framkvæma aðgerðina án þess að opna liðinn. Í gegnum hina skurðina er siðan farið inn með þau verkfæri sem þarf til að framkvæma aðgerðina. Helstu aðgerðir sem framkvæmdar eru með þessari tækni af okkur eru:

Axlir:

 • Aðgerð vegna sinaklemmu í öxl (subacromial decompression)

 • Aðgerð vegna skemmda á sinafestu eða slits á sin (rotator cuff syndrome/injury)

 • Aðgerð vegna endurtekinna liðhlaupa í öxl (bankart)

 • Aðgerð vegna slitbreytinga í lið viðbeins og herðablað (AC resection)

 • Aðgerð vegna liðhlaups á viðbeini (AC reconstruction)

Hné:

 • Aðgerð vegna skemmdar í liðþófa

 • Aðgerð vegna krossbandaáverka

 • Aðgerð vegna staðbundinna skemmda á liðbrjóski

 • Aðgerð vegna endurtekinna liðhlaupa á hnéskel

 • Aðgerð vegna liðmúsar

 • Aðgerð vegna langdreginna bólgubreytinga í liðpoka

Ökkli:

 • Aðgerð vegna staðbundinna skemma á liðbrjóski

 • Aðgerð vegna liðmúsar

 • Aðgerð vegna langdreginna bólgubreytinga í liðpoka

 • Aðgerð vegna slitbreytinga þar sem ökklaliður er stífaður

Olnbogi:

 • Aðgerð vegna staðbundinna skemma á liðbrjóski

 • Aðgerð vegna liðmúsar

 • Aðgerð vegna langdreginna bólgubreytinga í liðpoka

Úlnliður:

 • Aðgerð vegna taugaklemmu

 • Aðgerð vegna liðbandaáverka í úlnlið

Handaraðgerðir //

Við framkvæmum allar hefðbundnar aðgerðir á höndum, svo sem:

 • Karpal tunnel aðgerð v/handardofa

 • Fjarlæging vökvapoka (ganglion)

 • Losun fingurfestu (gikk fingur)

Fótaraðgerðir //

Við framkvæmum allar hefðbundnar aðgerðir á fótum og tám, svo sem:

 • Hallux valgus

 • Hamartær

 • Framfótar aðgerðir vegna iktsýki

Aðgerðirnar eru flestar gerðar í slævingu/svæfingu og staðdeyfingu þannig að þú sért sem fljótust/fljótastur að jafna þig eftir aðgerðina.

AUTOLOGOUS PROTEIN SOLUTION

- APS nStride -

Er nýjung í einkennameðferð slitgigtar og liðskemmda. Meðferðin felst í að blóðþáttur (blóðflögur, vaxtaþættir og bólgueyðandi þættir) er unninn úr blóði sjúklings og síðan sprautað í viðkomandi lið.

Rannsóknir sýna langvarandi (meira en 1 ár) árangur með minnkuðum einkennum og aukinni færni.

Slitgigt er orsökuð af flóknu bólguferli, APS meðferð vinnur á móti þessu ferli og minnkar þannig einkenni //

Bólguferli slitgigtar
Virkni APS meðferðar
APS meðferð minnkar verki og bætir færni

Verðskrá //

Komugjald er samkvæmt samningi Sjúkratrygginga Íslands og sérfræðilækna.

APS meðferðin, þ.e. blóðtaka (55 ml) og úrvinnsla blóðþátta (blóðflögur, vaxtaþættir og bólgueyðandi þættir) er ekki á samningi Sjúkratrygginga Íslands og sérfræðilækna. Kostnaður er 110.000 kr og greiðist af sjúklingi.