
Augnloksaðgerð //
Með aldrinum verða oftast breytingar á svæðinu kringum augun. Húðin missir hæfileikan til að dragast saman og það fara að myndast hrukkur, laus húð og sjáanlegir augnpokar.
Efri augnlokin verða þung og jafnvel leggjast á augnhárin og byrgja sýn.
Við neðri augnlok er dæmigert að fyllingin við kinnbeinið falli niður þannig að það myndast felling á mótum augnloks og kinnar sem myndar skugga (baugar).
Margt hefur áhrif á hvenær þetta gerist en erfðir, reykingar og sólarljós hafa mikil áhrif. Einnig spilar inn hvernig húðin hefur verið meðhöndluð og hvort hugsað hafi verið um húðina.
Algengt er leitað sé til lýtalæknis vegna þess að viðkomandi finnist hún/hann
vera með þreytulegt útlit, þung hangandi augnlok og poka undir augum, þó svo
viðkomandi sé hvorki þreyttur né illa sofinn. Oftast vill viðkomandi einungis líta frískari út en vill ekki að breytingarnar séu verulegar.
Nokkrar aðferðir eru til við að framkvæma augnlokaaðgerð og mikilvægt að nota þá aðferð sem passar hverjum sjúklingi best til að ná fram þeim breytingum sem viðkomandi óskar eftir. Því er viðtal við lýtalækni mikilvægt þannig að hægt sé að meta hvaða aðferð henti þér best. Algengasti aldur við aðgerð er 35-55 ára.
Fyrir aðgerð
Sjá upplýsingablað fyrir aðgerðir.
Aðgerðin
Það er misjafnt hvort þurfi að gera aðgerð bara á efri augnlokum eða neðri eða hvorutveggja. Aðgerð á efri augnlokum er oftast gerð í staðdeyfingu en þegar um neðri er að ræða þá er stundum valin svæfing.
Við aðgerð á efri augnlokum er gerður skurður sem er samsíða hrukkulínum en með því sést örið sem minnst. Við aðgerð á neðri augnlokum er skurðurinn lagður rétt fyrir neðan neðri augnhárin. Aðgerðin tekur um 60-90 mínútur.
Eftir aðgerð
Þú hvílir þig hjá okkur í um eina klukkustund í hvíldarrýminu okkar, með kaldar umbúðir á augunum til að draga úr bólgumyndun. Þú finnur aðeins fyrir því þegar deyfingin fer úr en að öðru leyti finnur þú aðeins fyrir smá óþægindum. Þegar þú ferð þá verður sendur rafrænn lyfseðill í apótek og við mælumst til þess að þú látir sækja þig en keyrir ekki sjálf/sjálfur heim. Við brottför færðu tíma í endurkomu sem er vanalega viku seinna þar sem saumar eru teknir sé gróandi góður.
Eftir að heim er komið
Þú skalt halda þig í ró sérstaklega fyrsta sólarhringinn því aukinn blóðþrýstingur getur aukið hættuna á blæðingu fyrst eftir aðgerð og mundu að beygja höfuðið ekki niður þar sem þrýstingur eykst sem getur valdið blæðingu. Gott er að hafa einhvern hjá sér fyrsta sólarhringinn eftir aðgerð. Mikilvægt er að hvílast með höfuðið svolítið hætta en hjartað (sofa kannski með auka kodda eða svolítið sitjandi fyrstu dagana) og notast við kalda bakstra á augun til að draga úr bólgu. Gott er að borða mjúkan mat fyrstu þrjá dagana og taka skal verkjalyf eins og sagt er til um. Tveimur dögum eftir aðgerð máttu fara í sturtu en ekki fara í baðkar né sund fyrr en saumarnir hafa verið fjarlægðir og sár lokuð (oftast 4 vikur). Saumar eru teknir eftir 7-14 daga. Þú mátt byrja á léttum æfingum þremur vikum eftir aðgerð og aukið hægt og rólega, en veruleg þjálfun með áreynslu er æskilegt að bíða með í 6-8 vikur. Forðastu beint sólarljós á örin í 6 mánuði og þetta gildir einnig um sólarbekki. Nota skal annað hvort plástur/tape 3M eða sólarvörn til að verja örin. Mundu að það tekur tíma fyrir andlitið að fá stit endanlega form. Eftir um það bil 3-5 mánuði er komið í eftirlit og eftirmyndatöku.
Ef þú færð hita yfir 38.5, roða, bólgu eða aukna verki í kringum skurðsár eftir að heim er komið skaltu hafa strax samband.
Verðskrá
Verð efri augnlok: 150.000 kr.
Neðri augnlok: 170.000 kr.
Efri og neðri augnlok: 290.000 kr.